Ofbeldi í garð transfólks á Íslandi

Yfirleitt skrifa ég á ensku á þessu bloggi, en í þetta skiptið skrifa ég á íslensku vegna þess að ég vil að sem flestir Íslendingar lesi þetta.

Ég er mjög sorgmæddur í dag. Sorgmæddur, reiður, sár og þreyttur. Síðan ég kom út úr skápnum sem trans þá hef ég sem betur fer almennt fengið góð viðbrögð frá þeim sem ég díla við. Hinsvegar eru ekki allir eins opnir og umburðarlyndir í garð þeirra sem eru öðruvísi.

Í morgun hringdi góður vinur minn sem einnig er trans í mig. Klukkan var 6 og hann var alveg í henglum. Ég flýtti mér til hans og sat með honum heillengi á meðan hann sagði mér frá 3 mönnum sem hann rakst á á skemmtistaðnum Faktorý. Þeir ákváðu að þeir væru ósáttir við að hann skildi “voga sér” að fylgja sannfæringu sinni og fara á karlaklósettið. Þeir börðu hann niður þangað til honum tókst að flýja. Hann fór í leigubíl og útskýrði hvað hefði gerst og var þá tilkynnt af þessum bílstjóraskratta að það væri geðveiki að vera trans og að hann vissi það sko af því að mamma hans er víst “sérfræðingur” í Svíþjóð.

Vinur minn komst loksins heim til sín niðurbrotinn, sár og óttasleginn og velti fyrir sér hvort þetta væri þess virði.

Við erum hræddir og við höfum ástæðu til að vera það. Það er fólk í samfélaginu sem býr yfir svo yfirgengilegu hatri og mannvonsku í okkar garð að ef við förum ekki varlega þá megum við búast við líkamlegu ofbeldi.

Vinur minn sagði aftur og aftur í gær “ég hélt það væri 2012, að fólk væri ekki lengur lamið svona”. Ég get ekki annað en verið sammála. Ég hélt að þessi þjóð væri komin yfir svona lagað, en það er ekki hægt að treysta á það.

Það er einn skemmtistaður á Íslandi þar sem við getum átt von á því að vera tiltölulega örugg. Það er Gay 46, en jafnvel þar þurfum við að fara varlega. Fordómar í garð transfólks koma úr öllum áttum. Það er sérstaklega sárt að rekstaraðilar staðarins gera sér ekki grein fyrir því að “samkynhneigð” og “hinsegin” eru ekki samheiti og því stöndum við frammi fyrir því að transfólk, tvíkynhneigðir, ókynhneigðir og annað hinsegin fólk getur ekki verið visst um að tilveruréttur þeirra sé virtur nokkurs staðar.

Frumvarpinu sem núna er verið að leggja fyrir Alþingi er ætlað til að bæta réttarstöðu transfólks á Íslandi og það er virkileg þörf á því. Eins og staðan er í dag þá er ekki ólöglegt að neita mér um vinnu eða húsnæði. Kynvitund mín er ekki vernduð í íslenskum lögum. Hver sem er má mismuna mér og tala um mig hvernig sem er og ég get ekkert í því gert. Það er löglegt.

Þetta er  þörf umræða. Við viljum bara vera örugg eins og allir aðrir en við erum það ekki.

26 Comments (+add yours?)

  1. Sesselja
    Apr 01, 2012 @ 20:57:33

    Hvað meinar þú með trans-fólk ???

    Reply

    • Hafthor
      Apr 01, 2012 @ 21:04:37

      Áður fyrr vorum við kölluð kynskiptingar en við erum ósátt við það orð og notum frekar trans í dag.

      Reply

  2. x
    Apr 01, 2012 @ 21:16:44

    Tekið af síðu GAY 46:
    Tilkynning til Bleika hnefans::

    Allt hinsegin fólk verður megin þema nýja staðarins þar sem áhersla verður lögð á að skemmta Samkynhneigðum , Transgender , Intersex , Tvíkynhneigðum og Straight og til samanburðar þá hefur Boysclubiceland Strakaklubburinn sem er tengdur GAY 46 – þegar boðið velkomna einn Transgender einstakling til okkar
    Vonumst til að sjá alla sem fyrst

    Reply

  3. Elis Veigar Cole
    Apr 01, 2012 @ 21:17:19

    Alveg ömurlegt að heyra, finnst glatað að fólk þurfi að haga sér svona.

    En mér finnst samt skrítið að draga fram Gay46 þarna inn í. Get ekki beturu séð en þeir auglýsi sig sem Hinsegin skemmtistað.

    http://www.facebook.com/pages/GAY-46-Skemmtista%C3%B0ur/317567014948208?sk=info

    Reply

    • Captain Queero
      Apr 04, 2012 @ 14:05:44

      “Get ekki beturu séð en þeir auglýsi sig sem Hinsegin skemmtistað.”

      Þá gætu gleraugu verið góð fjárfesting

      “Skemmtistaður fyrir hinsegin fólk og alla vini þeirra(þar með talið Trans,Intersex , Tvíkynhneigðir og líka Straight )”

      Skemmtistaður fyrir hinsegin fólk og alla vini þeirra (þar með talið …….)

      Lesum þeta soldið gagnrýnt, þetta er skemmtistaður fyrir hinsegin fólk og vini þeirra
      ….þannig að hinsegin fólk eru samkynhneigðir og Trans,Intersex,Bi og str8 eru greinilega eitthvað annað og bara vinir hinna samkynhneigðu.

      Trans, Intersex, bi og str8 fá meira segja að vera í sviga á eftir hinum samkynhneigðu hinsegin.

      og svo er toppurinn á þessu öllu “Þar með talið Trans, Intersex, Tvikynhenigðir og straight” …. Það er ekki 1 opinber intersex manneskja á öllu íslandi

      Mín persónuleg kenning á þessu máli er að rekstraraðilar staðsins hafi ekki hundsvit á hinsegin menningu (hinsegin sem LGBTQAI, ekki bara GAY) og þeir hafi hent inn þessari vægast sagt fáránlegu orðuðu klausu bara til að þagga niður í fólkinu sem var fúlt þegar þau voru að opna

      Kveðja. Hinsegin Manneskja (og nei, ekki gay hinsegin)

      Reply

  4. Illugi Jökulsson
    Apr 01, 2012 @ 21:18:32

    Við ritun stjórnarskrárfrumvarps síðastliðið sumar reyndum við að koma inn í væntanlega stjórnarskrá að koma orðinu “kynvitund” inn í þann lista í mannréttindaákvæði þar sem talin eru upp þau atriði sem EKKI mega verða grundvöllur mismununar. Silja Bára Ómarsdóttir flutti tillögu um það og við studdum hana nokkur með ráðum og dáð. Því miður var tillagan felld með minnsta mun. Félagar okkar í ráðinu sögðust sumir einfaldlega ekki hafa vitað nóg um málið til að þeir treystu sér til að greiða atkvæði með. Kannski fórum við of seint af stað með þetta. Altént var miður að þetta skyldi ekki takast, en við vonum að þau ákvæði sem þó er þarna að finna dugi til að draga megi fljótt og vel úr mismunun með trans fólk verður fyrir. En eitthvað skortir samt upp á úr því að það vel upplýsta fólk sem í stjórnlagaráði sat taldi sig sumt ekki nógu vel að sér um málið til að treysta sér til að setja ákvæði um þetta alla leið í stjórnarskrá. Svo það þýðir ekki annað en halda áfram að kynna málstað ykkar.

    Reply

  5. Sigríður
    Apr 01, 2012 @ 21:20:03

    Mikið er sorglegt að heyra. Þetta. Mikið verk er óunnið í að bæta réttindi transfólks og útrýma fordómum í þeirra garð og umræðan skiptir miklu máli. Baráttukveðjur, Sigríður Guðmarsdóttir

    Reply

  6. Hafthor
    Apr 01, 2012 @ 21:21:56

    Ég nefndi Gay 46 í þessu samhengi vegna þess að undanfarið hefur staðurinn verið í umræðunni þar sem ítrekar er talað um hann sem skemmtistað fyrir “samkynhneigða”. Það hefur stungið mig og fleiri mjög illa. Ef þetta er hinsegin skemmtistaður þá á að tala um hann sem það.

    Reply

  7. Hafthor
    Apr 01, 2012 @ 21:22:50

    Takk fyrir Illugi. Það stendur til að halda áfram að tala um þetta.

    Reply

  8. setta@queer.is
    Apr 01, 2012 @ 21:41:35

    Ég tek undir með þér varðandi umræðu um Gay46. Það hefur stungið mig að eigandi staðarins skuli ítrekað tala um samkynhneigða, homma og lesbíur, hommsur og lessur.

    Hinsegin orðalagið var sett á facebook-síðuna þeirra eftir að hagsmunafélög hinseginfólks höfðu gagnrýnt Gay46 fyrir nálgun sína í markaðssetningu – en þetta var nú bara gert uppá punt, því miður hefur ekki verið talað um annað en homma og lesbíur eða samkynhneigða þegar staðurinn er nefndur á nafn… svo það var ekki meiri stemming fyrir þessu en svo að eigandinn leggur nákvæmlega enga áherslu á að vera hinsegin… svekk

    Reply

  9. Birna Gunnlaugsdóttir
    Apr 01, 2012 @ 21:47:27

    Ofsóknir eru næsti bær við mannréttindabrot…

    Reply

  10. Jóhanna
    Apr 01, 2012 @ 21:55:16

    Ok núna skammast ég mín fyrir að vera íslendingur!

    Kynhneigð, hörundslitur, trúarskoðanir, útlendingar eða ekki….Það skiptir engu máli hver við erum, við erum MANNLEG !!!

    Við eigum ÖLL rétt, og ég vil benda ykkur á það að ég þekki nokkra einstaklinga sem eru kynskiptingar og þetta fólk er alveg það sama og það var áður :)

    Ég styð ykkur í baráttunni og ég vil sjá ykkar mál í stjórnarskránni. ÁFRAM

    Reply

  11. Hella
    Apr 01, 2012 @ 21:56:17

    Ég vona að þessi vinur þinn kæri þessa aðila fyrir líkamsárás. Annars þá frussa ég á þá afsökun að fólk hafi ekki nægt vit á hugtakinu kynvitund sem var meira að segja skilgreint í þessari tillögu.

    Reply

  12. Kristín
    Apr 01, 2012 @ 22:26:29

    Þetta segir svo miklu meira um þess menn en vin þinn, eða annað transfólk! Sorglegt að vera svo hræddur og illa upplýstur að þurfa grípa til ofbeldis.

    Vona að vinur þinn kæri þessa menn fyrir líkamsárás!

    Reply

  13. Elísabet
    Apr 02, 2012 @ 00:34:17

    Kannski að ég hefði bara átt að berja gaurinn sem fór á kvennaklósettið? Ég skil ekki hvað er að svona liði og ég er sammála… ég hélt að það væri árið 2012 og að þetta gerðist ekki lengur.
    Ég vona að vinur þinn jafni sig sem fyrst og haldi áfram að fara stoltur á karlaklósettið!!!!

    Reply

  14. Nafnlaus
    Apr 02, 2012 @ 04:03:56

    Er hægt að tala einslega við þig? Ég er nýkomin til Íslands og þetta atriði hefur áhrif á mig…

    netfangið mitt er fas@eaku.net

    Reply

  15. Ása Björk
    Apr 02, 2012 @ 05:18:29

    Ef e-r er með fordóma gagnvart “öðruvísi” fólki fínt, vertu fáfróður í friði, ekki ganga um og berja fólk skoðunar þinnar vegna ! Ógeðslegt lið.

    Ég vona svo innilega að vinur þinn, hans og allra annara vegna, hafi samband við Faktory og lögreglu, pottþétt hægt að finna mennina gegnum öryggismyndavélarnar og kæri þá.

    Reply

  16. Björgvin R Gunnars
    Apr 02, 2012 @ 09:20:18

    sorglegt.. í mínum huga eru allir jafnir.. annað kemur ekki til greina.

    Reply

  17. Vilhelmina Ragnarsdóttir Olsson frá Svíþjóð síðan "65
    Apr 02, 2012 @ 09:21:26

    Ég spyr bara HVAÐ ER HINSEIGIN OG ÖÐRUVÍSI ? Við erum ÖLL eins. Að þessi leigubílstjóri hafi sagt að móðir sín sé einhver “sérfræðingur” frá Svíþjóð í þessum málum, þá ætti hún að skila öllum ritgerðum og prófum tilbaka. Ég skora á ykkur að fara á viðkomandi leigubílastöð og kæra viðkomandi fyrir þessi orð. Hann er í vinnu í þágu almennings og á EKKI að fá leyfi til að dæma neinn. Þó að ég sé kerling með 5 uppkomin börn, þá hefur maður lært mikið á æfi sinni og síðustu áratugina hefur fólk fengið miklar upplýsingar um gagnkynt fólk svo að það ætti ekki að vera neinn vafi hjá almenning. ALLIR eiga rétt á eigið lífi, samkynhneigðir og gagnkynhneigðir. ALLIR eiga að vera glaðir að margir þurfa ekki að þjást lengur og fara í felur frá unga aldri. Því yfirleitt finna allir ekki fyrir þessu fyrr en á unglinga aldri. OG hver gefur öðrum rétt að dæma ? Ég á ekki önnur orð yfir þetta en að þetta er LJÓTT, ÓHUGNALEGT og ég vorkenni svona fólki fyrir fákunnáttu sína og þetta með “elsku ég er best/ur og veit allt” Það er ákaflega sorglegt að lesa þetta. Vinir mínir ég vona að þið náið ykkur og berið höfuð hátt fyrir hver þið eruðþ Ég er með ykkur til 100% Baráttukveðjur <3

    Reply

  18. Egvania
    Apr 02, 2012 @ 10:24:27

    Þetta er sorglegt að lesa okkur vantar umburðarlyndi gagnvart hvort öðru, engin á að þurfa að þjást svona.

    Reply

  19. Kolla
    Apr 02, 2012 @ 11:04:02

    Sæl öllsömul.
    Mér þykir vægast sagt hræðilegt að lesa þetta með barsmíðarnar og þetta á aldrei að líðast, sama hvaða ári við lifum á.
    Ég er ein af þeim sem stendur að Gay46 og þykir líka mjög leiðinlegt að sjá eina Hinsegin staðinn á íslandi settann inn í svona sorglega en þarfa umræðu.
    Ef einhver hefði komið til okkar og bennt á að við séum að segja samkynhneigða en ekki hinsegin þá hefðum við alveg breytt því og breyttum því um leið og við sáum þessi skrif. Það er ekki gert vísvitandi að sleppa því að skrifa hinsegin og við erum bara ekki meðvituð um þetta fyrr en nú.
    Fyrir mína parta þá gerði ég mér enga grein fyrir þessu og mun nú alltaf segja hinsegin þegar ég skrifa fyrir okkar hönd á síðuna til að mynda.
    Ég vona sannarlega að við getum unnið þetta allt saman og þið finnist þið velkomin og örugg hjá okkur sama hvernig hinsegin við erum öll :)
    Kær kveðja og knús
    Kolla hinsegin lessa !

    Reply

  20. binni68
    Apr 02, 2012 @ 12:24:24

    Ég bara spyr er ekki alla daga verið að beita fólk ofbeldi og einelti grasserar bæði á vinnustöðum og skólum, en ef það er ykkar lífstíll að klæðast sem konur og koma þannig inn á skemmtistaði þá er það sjálgefið að kvennasnyrting er staðurinn fyrir ykkur, ekki satt þar eru lokaðir básar en á karlasalernum eru einnig þvagskálar í almennu rými, mér hefði óneitnanlega brugðið að sjá kvenmann þar inni og hefði bent henni vinsamlegast að nota kvennsalernið, eru þá viðbrögð fólks sem erum með þennan lífsstíl að svara nei ég er sko karlmaður???? af hverju þarf kynvitund og kynhneigð að skipta máli á tali við ókunnugt fólk mér persónulega er alveg skítsama hvaða kynhvöt viðkomandi er haldin gæti ekki verið meira sama en hef upplifað það fyrir nokkrum árum að það byrjar ung kona að vinna með mér og þegar hún mætti og gekk um og kynnti með nafni en það sem fór í taugarnar á mér við annars afskaplega geðþekku og frábæru konu að hún endaði á að segja við alla sem hún tók í höndina sæll Guðrún heiti ég og er samkynhneigð,mér er óskiljanlegt að sjá hvað okkur varðaði um hennar kynlíf, fyrir mér kallar svona lagað á að þið sjálf dragið ykkur frá fólki og notið kynhneigð ykkar sem ástæðu fyrir öllu mótlæti sem þið verðið fyrir, en vitið þið það að allir eru að verða fyrir andlegu sem og líkamlegu ofbeldi alla daga og kynhneigð hefur ekkert með að gera, hættið að vera alltaf að hamra á daginn út og inn á hvernig kynlíf þið stundið heima, allavega svona meginþorri fólks vill ekki að þessi partur af lífi sýnu sé básúnaður um stræti og torg, þetta hefur allt með persónu fólks að gera ekki kynhneigð, það er prívat mál milli einstaklinga og koma engum við, hættið að vera að tala um ykkar einkalíf og leyfið fólki að kynnast persónuni, Alfarið ykkar að koma svona fram með opna umræðu og draga ykkur sjálf í dilka sem öðruvísi en aðrir.

    Reply

  21. örn
    Apr 02, 2012 @ 14:10:37

    Binni trans-maður er maður sem fædd er lífræðilega kona, þar af leiðandi var notað rétt klósett.

    Einnig er kynvitund og kynhneigð ekki það sama, kynvitund er upplifun þín á þínu kyni, en kynhneigð er hvort kynið þú hrífst af

    Ég er alveg sammála því að fólk ætti ekkert að vera að kynna sig eftir hverju það hrífst af, enda einkamál hvers og eins, en það kemur samt aldrei fram í þessari grein hvort umræddi maður sé samkynhneigður eða ekki enda kemur það málinu ekki við, Hann upplifir sig sem karlmann og lifir eftir því, en það er greinilega ekki allir sammála því að hann fái að gera það

    Reply

  22. Sandra
    Apr 02, 2012 @ 18:25:55

    Þetta er alveg hryllingur og að það sé ennþá svona mikið af fordóma fullu fólki í heiminum..
    Það á ekki að skipta máli hvort klósettið er notað, ég hef oft notað karlaklósettið þegar kvenna er fullt, bilað eða búið að æla útum allt en samt er ég stelpa.. hef fengið diss fyrir það en ég ætla nú samt ekki að míga í mig bara afþví eini valmöguleikinn er “bannaður” ;)
    Ég hef líka verið barin og lögð í mjög mikið einelti fyrir að vera tvíkynhneigð þar sem það er víst ekki hægt eða ógeðslegt og eitthvað að mér, hef fengið að heyra frá fjölskyldu meðlimum að það sé ekki hægt að vera fyrir bæði, maður verði að velja, annað er bara athyglissýki. En mikið af þessu fólki er bara ekki með pláss í heilanum né hjartanu og það hlítur að vera rosalega vont að finna allann þennan hatur í sér, að geta ekki leyft fólki að vera það sjálft án þess að finna og sýna hatur.
    Ég vona innilega að þetta fari nú að skána þar sem þetta er jú fáránlegt, ekki er hinsegin fólk að ráðast á gagnkynhneigða útaf kynhneigð, ekki er hinsegin fólk að ráðast á aðra útaf klæðnaði, afhverju þurfa gagnkynhneigðir að ráðast á aðra útaf klæðnaði eða kynhneigð?

    Reply

  23. Gyða
    May 23, 2012 @ 01:04:35

    Rosalega átakanlegt að lesa þetta.
    Mér finnst að í samfélagi eins og á íslandi þar sem fólk virðist vera tiltölulega opið fyrir öllu þá ætti ekki svona hlutir að viðgangast.
    Þetta er ekkert annað en hatursáróður og fólk sem ekki getur tekið trans-fólki eins og að er ætti bara að skammast sín fyrir að vera svona heimskt og þröngsýnt
    Gangi þér vel í ferlinum

    Reply

  24. Trackback: 2. apríl 2012 – Ísland árið 2012, ofbeldi gagnvart transfólki | Anna K. Kristjánsdóttir

Leave a reply to Sigríður Cancel reply