Af hverju ég hætti við

Fyrir um ári síðan tilkynnti ég fólkinu í lífi mínu og öllum á Facebook að ég væri trans og að ég ætlaði að hefja ferlið í áttina að því að lifa sem karlmaður. Síðan hefur margt gerst og ég tók þátt í ýmsum verkefnum sem snérust um að fræða almenning um það hvað það þýðir að vera trans.

Til að byrja með gekk allt vel og mér leið virkilega vel með þá ákvörðun sem ég hafði tekið. Ég hóf hormónameðferð í lok mars og stefndi á að fara í brjóstnám núna í haust. Hinsvegar þegar leið á sumarið og ég var sem mest á kafi í stressi yfir mastersritgerðinni (sem nú er lokið) þá ákvað ég að fresta aðgerðinni. Ég var ekki í líkamlegu standi til að díla við stóra skurðaðgerð auk þess sem ég þurfti að fara að vinna sem fyrst til að hafa einhverjar tekjur.

Eftir að sú ákvörðun hafði verið tekin áttaði ég mig á því hversu mikið mér létti við það. Í framhaldinu fór ég að hugsa meira um það hvað þetta þýðir allt saman fyrir mig. Eftir nokkurra vikna umhugsun hef ég ákveðið að þótt kynvitund mín sé á reiki og ég eigi erfitt með að átta mig á því hvar ég stend, þá er ferlið ekki rétta leiðin fyrir mig.

Það er svo margt í þessu öllu saman sem er svo flókið og erfitt. Samskipti við fólk í kringum mig, þá sérstaklega fjölskylduna og gamla vini, eru skrítin og klunnaleg og allt sem viðkemur ástarsamböndum og slíku er flókið og valmöguleikar mínir fáir. Mér finnst erfitt að geta ekki farið í sund eða ræktina án þess að það sé mikið mál. Það er alltaf hálfleiðinlegt að hitta nýtt fólk og að þurfa alltaf að vera að útskýra hlutina.

Það eru kostir og gallar sem fylgja því að fara í gegnum ferlið, alveg eins og það eru kostir og gallar sem fylgja því að gera það ekki. Þegar ég tók þá ákvörðun að byrja á þessu, þá gat ég illa borið þessa valkosti saman. Ég sé ekkert eftir því að hafa farið þessa leið, ég þurfti að gera það til að skilja mig betur og meta almennilega hvað mér stendur til boða í lífinu. Ég sé núna að gallarnir og fórnirnar sem fylgja því að fara alla leið í þessu ferli eru eitthvað sem ég er ekki tilbúin til að lifa með. Ég tel að það sé heilbrigðara fyrir mig, á þessum tímapunkti, að finna leið til að vera hamingjusöm í líkama mínum eins og hann er.

Ég vil hinsvegar að það sé alveg á hreinu að þessi ákvörðun mín hefur EKKERT að gera með annað transfólk. Þetta þýðir ekki að allt annað transfólk eigi bara líka að reyna að vera sátt eins og það er, eða að þetta sé allt saman bara einhver geðveiki eða eitthvað furðulegt tímabil. Það eru forréttindi að vera í þeirri stöðu að geta ákveðið að gera þetta ekki. Ég hélt þegar ég byrjaði að það væri eina leiðin til að lifa af, en ég sé núna að það er ekki rétt…í mínu tilfelli. Í tilfelli margs transfólks (ef ekki flests) þá er það spurning um líf og dauða. Ferlið er eina leiðin til að lifa af.

Ferlið er á öllum stigum hannað þannig að það sé í boði að snúa við. Þetta er stærsta ákvörðun sem nokkur manneskja getur tekið, og umsvifamestu breytingar sem nokkur sál getur gengið í gegnum. Það er stór og erfið ákvörðun að gera þetta. Það fer enginn út í þetta nema að vera alvara…og mér var alvara. En það er líka stór og erfið ákvörðun að hætta við og ég þarf alveg jafn mikinn stuðning til þess.

Ég er því núna Dóra (Halldóra) enn á ný. Það verður skrítið að venjast því aftur og að miklu leiti ekki auðvelt. Ég á langt tímabil framundan þar sem ég þarf mikið að vinna með það hvernig mér líður og hvað ég get gert til að finna minn stað í lífinu.

Ég vil taka það strax fram að ég vil ekki fá að heyra “ég vissi allan tímann að þetta færi svona” eða einhvers konar pælingar um geðheilsu mína. Eina manneskjan sem getur eitthvað útskýrt um hvað þetta snýst eða hvað það þýðir er ég!

Advertisements

Aside

12 Comments (+add yours?)

 1. Sigríður Gunnarsdóttir
  Oct 24, 2012 @ 11:00:41

  Elsku Dóra mín, Mér fannst þú ótrúlega kjörkuð að fara út í þetta erfiða ferli en mér finnst þú líka ótrúlega hugrökk að hætta við og þora að horfast í augu við að þetta er ekki eina leiðin ! Við styðjum þig hvernig sem þú ákveður að haga lífi þínu.
  Kveðja frá Siggu frænku.

  Reply

 2. Kaja
  Oct 24, 2012 @ 11:50:01

  Elsku Dóra, ég segi nú eins og mamma, mér finnst þú alveg ótrúlega hugrökk og dugleg. Það veit enginn nema þú hvernig þér líður og hvað þarf til að þú verðir hamingjusöm í lífinu. Mér þykir alla vega nákvæmlega jafn vænt um þig hvort sem þú heitir Halldóra eða Hafþór og ég dáist að því hvað þú ert dugleg. Kveðja, Kaja.

  Reply

  • Halldora
   Oct 24, 2012 @ 18:08:02

   Takk innilega Kaja, það er frábært hvað ég á gott fólk að. :) Mér þykir líka rosalega vænt um þig.

   Reply

 3. Random manneskja af vefnum :)
  Oct 24, 2012 @ 17:59:55

  Mér finnst þú bara ótrúlega hugrökk að reyna að gera allt til að finna sjálfa þig og láta þér líða betur. Þá hefur þú einnig vakið umræðu um ferlið og verið ófeimin að tala um það sem er frábært! Vona bara að þér líði vel hvort sem þú sért Halldóra, Hafþór eða hvað sem þig langar til <3

  Reply

  • Halldora
   Oct 24, 2012 @ 18:07:36

   Sæl Random Manneskja af Vefnum

   Kærar þakkir fyrir athugasemdina. Það er gott hvað viðbrögðin eru jákvæð. :)

   Reply

 4. ;)
  Oct 24, 2012 @ 18:41:35

  ég segi það líka, þú ert ótrúlega hugrökk og þú ein veist hvað hentar þér, ekki láta nokkurn mann segja þér eitthvað annað ;)

  Reply

 5. Ég
  Oct 24, 2012 @ 20:05:33

  Mér finnst þú ótrúlega hugrökk. Ég á son sem fyrir ári síðan kom út sem samkynhneigður. 6mánuðum seinna tilkynnti hann mér að hann væri trans. Nú í dag eftir mikla baráttu við sjálfann sig er hann í sambandi með stelpu. Mér er nokk sama hvaða kynhneigð hann aðhyllist eða hvort kynið hann telur sig vera, ég elska hann alveg jafn mikið. Vona bara að hann sé sáttur við sjálfann sig og þá leið sem hann velur.

  Ég óska þér góðs gengis og vona að þú verðir sátt við sjálfa þig. það skiptir mestu máli.

  Reply

  • Halldora
   Oct 24, 2012 @ 21:05:02

   Takk kærlega fyrir. Það er gott að sjá hvað viðbrögðin eru jákvæð. Ég er líka ánægð að heyra um son þinn, hann á góða að. :)

   Reply

 6. Mannvera
  Oct 25, 2012 @ 00:29:19

  Eg styð þig heilshugar, las viðtalið þitt og fannst þú falleg manneskja og þú verður það hvaða ákvörðun um kroppin þinn þú tekur í framtíðinni. Oska þér góðs í lífinu.

  Reply

 7. kona úti í bæ
  Oct 25, 2012 @ 08:51:56

  Halldóra ég verð bara að láta þig vita að ég dáist svo að þér. Mér finnst þú svo hugrökk og stendur svo vel með sjáfri þér. Gangi þér allt í haginn.

  Reply

 8. Einhverf
  Oct 31, 2012 @ 13:07:26

  Ég velti þessu dálitið fyrir mér þegar ég var unglingur og uppúr tvítugsaldri. Ræddi aldrei við einn eða neinn en hef aldrei litið á mig sem konu þrátt fyrir að líkami minn sé kvenkyns. Að lokum komst ég að þeirri niðurstöðu að transferlið hentaði mér ekki, enda hef ég eiginlega aldrei litið á mig sem karl heldur, ég er bara ég. Ég fékk reyndar greiningu um Asperger heilkenni síðar á ævinni en það er algengt hjá fólki með “einhverfurófsröskun” að skynja sig ekki sem kynveru eða vera á reiki með kynvitund sína.

  Reply

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

w

Connecting to %s